2014

Taekwondosamband Íslands hefur valið íþrótta mann og konu ársins 2014

Íþróttamaður ársins 2014 er Meisam Rafiei

Íþróttakona ársins 2014 er Ástrós Brynjarsdóttir

Meisam Rafiei taekwondomaður ársins 2014

Ástrós – Taekwondokona Íslands 2014 pdff

 


 

Meisam Rafiei, er vel að titilinum kominn.  Meisam er fæddur og uppalinn í Íran en fluttist til Íslands árið 2010.

Hann hóf þegar fulla þátttöku í landsliðsverkefnum sem iðkandi og aðstoðarþjálfari landsliðsins. Hann tók síðan við sem aðallandsliðsþjálfari Íslands árið 2011. Hann gat þó ekki keppt fyrir Íslands hönd á Evrópu- og Heimsmeistaramótum fyrr en hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2012. Að vísu komu alvarleg meiðsli í veg fyrir að hann gæti keppt fyrir Ísland fyrr en upp út miðju ári 2013 og var hann ekki orðinn alveg góður af meiðslunum fyrr en í byrjun árs 2014.

Byrjaði hann keppnisárið með því að keppa á stórum topp styrkleika mótum eins og Ameríska opna, Kanadíska opna og svo í Svíþjóð á Trelleborg Open og byrjaði það mjög vel enda náði hann 3. sæti á því móti. Með því náði hann sér í stig inn á heimslistann sem hann hafði ekki gert í 2 ár vegna meiðslanna.

Keppti Meisam á nokkrum topp-styrkleika mótum út árið og vakti umtalsverða athygli og náði að vinna sterka andstæðinga, en náði því miður ekki á verðlaunapall á þessum mótum þó að oft hafi munað mjög litlu enda er þessi flokkur með þeim erfiðari vegna fjölda keppenda. Meðal annars keppti hann á Evrópumeistaramótinu í Baku og lenti í 16 sæti eftir að hafa tapað fyrir keppanda frá Portugal sem síðan stóð uppi sem sigurvegari mótsins og er núna númer 1 á styrkleikalista heimssambandsins.

Í október keppti Meisam á Serbneska opna, sem er topp styrkleika mót og endaði þar í 5-8 sæti af 29 keppendum. Þar var hann einnig sleginn út af sigurvegara mótsins, núna frá Mexikó og bardagi þeirra tapaðist með minnsta mun 7-8 fyrir Mexikóanum. Þess má geta að Mexikóinn sigraði Evrópumeistarann í úrslitum og er núna númer 2 á heimslistanum.

Meisam keppti  á Norðurlandamótnu í maí og sigraði þar sinn flokk með yfirburðum, og var áberandi sterkasti keppandi mótsins.

Meisam var í nóvember einn af 8 íþróttamönnum til þess að hljóta styrk frá Ólympíusamhjálpinni til þess að reyna að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Rio 2016. Til þess að vinna 100% að því að uppfylla draum sinn um að keppa á Ólympíuleikum hefur hann sagt upp landsliðsþjálfarastöðu sinni, og þegar látið af störfum, til þess að einbeita sér að keppnum sem gefa stig í átt að Ólympíusæti, en aðeins 16 keppendur úr öllum heiminum komast inn í Ólympíuleikana í hverjum þyngdarflokki, Sex efstu á heimslista kom­ast beint til Ríó en16 bestu kepp­end­ur Evr­ópu þurfa að keppa  á sér­stöku móti um 2 laus sæti til viðbót­ar.  Meisam er sem stendur í 16.sæti Evrópulistans.

Helstu afrek Meisams á árinu eru:

  • Reykjavík International Games – 1.sæti.
  • Norðurlandameistari
  • Trelleborg opna – 3.sæti
  • Kanadíska opna – 9.sæti
  • Bandaríska opna – 9-16.sæti
  • Hollenska opna – 16.sæti
  • Gríska opna – 8.sæti
  • Evrópumótið í Baku – 16. Sæti
  • Serbneska opna – 8.sæti

 

Ástrós Brynjarsdóttir, úr Keflavík hefur verið valin íþróttakona ársins 2014 í taekwondo. Þetta er þriðja árið í röð sem Ástrós hlýtur þessa viðurkenningu.

Ástrós er ein efnilegasta taekwondokona heims               og eini Íslendingurinn sem hefur keppt  bæði á heimsmeistaramóti í bardaga og í formum á árinu, með eftirtektarverðum árangri, en greinarnar eru það ólíkar að það má líkja þeim við mismunandi greinar í frjálsum íþróttum.

Á heimsmeistaramóti unglinga í bardaga í Tævan tapaði hún naumlega fyrir þeim keppanda sem stóð síðan uppi sem  heimsmeistari  á því móti.

Á heimsmeistaramótinu í Mexicó í formum varð Ástrós í 10. sæti í afar fjölmennum flokki eftir að hafa slegið út m.a. ríkjandi Evrópumeistara.  Þess má geta að eftir fyrstu umferð var Ástrós með 4 bestu einkunn af 18 keppendum, en til að komast á þessi mót þarf að komast í gegnum erfitt úrtökuferli þar sem einungis hinir allra bestu keppendur heims komast á lokamótin.

Á Norðurlandamótinu í maí átti Ástrós frábæran dag. Hún varði Norðurlandameistaratitilinn  í bardaga með glæsibrag er hún sigraði bestu keppendur Noregs og Danmerkur með miklum mun, eða samtals með 33 stig skoruð gegn einungis 6 sem hún fékk á sig. Í tækni stóð hún sig einnig mjög vel en Ástrós var aðeins 0.05 í einkunn frá gullinu sem er ótrúlega lítill munur á henni og einum besta keppanda Evrópu í greininni og þurfti því að láta sér silfrið duga. Hún fékk einnig silfur í hópatækni.

Á Reykjavík Interntional Games vann Ástrós til fjögurra gullverðlauna, sigraði í öllum greinum sem hún keppti í, og var ennfremur valin keppandi mótsins.

Ástrós keppti á Íslandsmótinu í tækni og sigraði allar keppnisgreinarnar. Hún fékk gull í einstaklings, gull í hópa og gull í paratækni og er þetta í 3. sinn sem hún tekur öll gullin sem eru í boði á Íslandsmóti í tækni. Ástrós er enn ósigruð á íslenskum vettvangi í tækni eftir yfir 35 framkomur.  Hún var einnig valin keppandi mótsins á Íslandsmótinu en hún hefur ávallt fengið þá viðurkenningu þegar hún hefur keppt.

Þess utan er Ástrós margfaldur  bikarmeistari bæði í bardaga og formum.

Ástrós er einstaklega ákveðinn og einbeittur íþróttamaður sem hefur sýnt fram á mikinn vilja til að ná langt í sinni íþrótt. Hún tileinkar sér venjur marga bestu íþróttamanna heims og sættir sig ekki við neitt nema fyrsta flokks frammistöðu á öllum sviðum.

Helstu afrek Ástrósar á árinu eru:

  • Norðurlandameistari í bardaga
  • Silfurverðlaun á Norðurlandamóti í formum
  • RIG meistari í bardaga
  • RIG meistari í formum, einstaklings,para og hópa.
  • RIG valinn keppandi mótsins
  • Gullverðlaun í formum á Rodövre Cup í Danmörku
  • Þrefaldur Íslandsmeistari í formum
  • Íslandsmeistaramót í formum, valinn keppandi mótsins með lang hæstu einkunn.
  • Bikarmeistari í bardaga
  • Bikarmeistari í formum
  • Bikarmeistari keppandi mótsins í samanlögðu.
  • 10. sæti á heimsmeistaramótinu í formum í Mexíkó
  • 9-16.sæti á heimsmeistarmótinu í bardaga.
  • Samtals 13 gull og 2 silfur.