Dómaranefnd TKÍ (domaranefnd@tki.is) samanstendur af eftirtöldum svartbeltingum:

María Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Afturelding, Nefndarformaður
Haukur Skúlason, Afturelding
Helgi Rafn Guðmundsson, Keflavík
Malsor Tafai, Alþjóðadómari
Sigursteinn Snorrason, Selfoss
Sveinn Speight, Björk

Auk þess er stjórn TKÍ með aukaaðild að nefndinni og styður nefndina með ráð og dáð.

 
Hlutverk Dómaranefndar verður fjölþætt, en krefst m.a. náinnar samvinnu við mótanefnd, samvinnu við landslið í poomsae og sparring, auk samráðs og samvinnu við stjórn TKÍ.
 
Dómaranefnd skal stuðla að aukinni dómaramenntun á Íslandi, og fá til þess aðila til þess að halda dómaranámskeið á vegum TKÍ, svo og að stuðla að því að íslenskir dómarar fái tækifæri til þess að öðlast viðunandi menntun og reynslu erlendis. Dómaranefnd skal semja tillögur að styrktarkerfi TKÍ fyrir dómara, í samráði við mótanefnd og stjórn.
 
Dómaranefnd skal skipuleggja sérstakar landsliðsæfingar með tækjabúnaði í samráði við landsliðsþjálfara, og skal bera ábyrgð á að dómarar og landsliðsfólk sé kunnugt þeim tækjabúnaði sem notaður er á mótum innanlands sem utan.
 
Dómaranefnd skal viðhalda samskiptaneti dómara og aðstoða mótanefnd við að manna dómarastöður á mótum TKÍ. Nefndin skal leita leiða, í samráði við stjórn og mótanefnd, til þess að ná því langtímamarkmiði að öll keppnisgólf verði fullmönnuð af menntuðum, reyndum og hæfum dómurum í anda alþjóðlegra keppnisreglna, að gefnu tilliti til keppnisflokks. Leitast skal í því samhengi m.a. við að hafa 5 dómara á hverju gólfi í poomsae.
 
Dómaranefnd skal bera ábyrgð á að ná því langtímamarkmiði að hæfir yfirdómarar verði skipaðir fyrir öll mót TKÍ, og skal nefndin skipa yfirdómara fyrir öll mót TKÍ, í samráði við stjórn og mótanefnd. Yfirdómari skal bera ábyrgð á að yfirfara dóma á mótum og veita uppbyggilega endurgjöf með það í huga að þróa viðkomandi áfram sem dómara.
 
Ekki er ætlast til þess af nefndarfólki að það bjóðist til þess að sinna dómarastörfum sjálft, og sömuleiðis er ekki ætlast til þess að það geri það ekki. Um mikið og þakkarvert starf er að ræða sem þarf að deilast á margar hendur.
 
Dómaranefnd skal semja tillögur að umbunarkerfi dómara, í samráði við mótanefnd og stjórn, með það í huga að gera dómarastörf eftirsóknarverð.
 
Dómaranefnd skal aðstoða mótanefnd við að tryggja að starfsumhverfi dómara á mótum TKÍ verði til fyrirmyndar. Dómarar skuli geta gengið að vísu að því að þau verði leyst af og fái grunnþörfum sinnt. Dómarar skulu fá stuðning frá sér reyndari dómurum. Ungir og óreyndir dómarar skulu geta reitt sig á að þau beri ekki ábyrgð á samskiptum við deiluaðila og séu varin gegn áreiti.
 
Dómaranefnd skal skapa og skrásetja viðmið um aga og góða siði á mótum ásamt þeim venjum og verkferlum sem dómarar skuli hafa til þess að beita agaviðurlögum á mótsstað.
 
Dómaranefnd skal semja tillögur um reglur um mót á vegum TKÍ, þar með talið um verksvið, valdsvið og vinnubrögð yfirdómara, bardagastjóra og annarra dómara, í samráði við mótanefnd og stjórn TKÍ. Tekið skal fram að stjórn TKÍ þarf að samþykkja allar reglur, og skulu þær allar birtar á vef TKÍ.
 
Dómaranefnd skal bera ábyrgð á að veita dómurum opinbera viðurkenningu fyrir störf sín, s.s. bikar fyrir dómara mótsins.
 
Dómaranefnd skal skrásetja reynslu íslenskra dómara og leitast við að virkja dómara sem eru lítt eða óháðir keppendum, s.s. fyrrum iðkendur með viðeigandi menntun og reynslu.
 
Dómaranefnd skal leita samþykkis stjórnar TKÍ varðandi fjárútlát, ef kemur til álitamála, og í stórum málum svo sem hvar, hvenær og af hverjum námskeið skuli haldin.
 
Dómaranefnd verður skipuð til tveggja ára í senn. Ný dómaranefnd tekur til starfa að loknu síðasta móti vetrarins. Fráfarandi dómaranefnd ber ábyrgð á að ný dómaranefnd fái allan þann stuðning er þarf til þess að skiptingin gangi snurðulaust. Æskilegt er að þeir sem skipaðir eru í nefndina hafi reynslu af dómarastörfum og viðeigandi menntun.
 
Stjórn TKÍ áskilur sér rétt til að leggja niður nefndir ef upp kemur óleysanlegur ágreiningur milli nefndarinnar og stjórnar. Stjórnin áskilur sér einnig rétt til að hafa yfirumsjón með öllum nefndum sem starfa í umboði hennar og búist er við náinnar samvinnu og uppbyggilegum samskiptum með grunngildi Taekwondo að leiðarljósi.