Taekwondosamband Íslands hefur valið Ágúst Kristinn Eðvarðsson frá Keflavík og Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttur frá Selfossi sem taekwondofólk ársins 2015.

 

Ingibjörg Erla hefur náð einstökum árangri á mótum erlendis á árinu en þó báru hæst silfurverðlaun hennar á gríðarlega sterku móti, Serbian Open, sem er hluti af stigamótaröð Alþjóða Taekwondosambandsins, WTF.  Er þetta í fyrsta skipti sem íslensk kona vinnur til verðlauna á þessari mótaröð, þar sem saman kemur sterkasta taewkondofólk heimsins hverju sinni.  Önnur afrek Ingibjargar á árinu eru m.a. þau að hún varð Íslands- og Norðurlandameistari.  Ingibjörg er okkar allra besta bardagakona í taekwondo um þessar mundir og mun hún keppa á lokaúrtökum fyrir Ólympíuleikana sem haldnar verða í Tyrklandi um miðjan janúar.

 

Ágúst Kristinn Eðvarðsson hefur sannað sig sem einn allra færasti taekwondomaður landsins þrátt fyrir ungan aldur.  Ágúst er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari, auk þess að vera ósigrandi á öðrum mótum innanlands undanfarin ár.  Árið 2015 hreppti Ágúst bronsverðlaun á Evrópumóti ungmenna og var einungis hársbreidd frá því að fara í úrslit á þessu gríðarsterka móti.  Er þetta í fyrsta sinn sem Íslendingur vinnur til verðlauna á Evrópumóti í ólympísku taekwondo.  Ágúst keppti sl. sumar á heimsmeistaramóti ungmenna í S-Kóreu þar sem hann stóð sig mjög vel, sigraði sinn fyrsta bardaga en varð að játa sig sigraðan í þeim næsta.  Árangur hans á heimsmeistaramótinu var sá næstbesti hjá Íslendingi á slíku móti.

ingibjörg Erla  Ágúst Kristinn