Arnar Bragason, okkar allra reyndasti keppandi í taekwondo, vann í nótt til gullverðlauna í veteran flokki á US Open sem haldið er í Las Vegas í Bandaríkjunum. Mótið er eitt það stærsta á ári hverju og þetta árið fór stór hópur íslenskra keppenda vestur um haf.
Í fyrri bardaganum mætti Arnar sigurvegara í +80kg flokki frá í fyrra, og vann sá það mót með töluverðum yfirburðum, og var Arnar óhress með að mæta honum í fyrsta bardaga. Arnar lenti undir í bardaganum í byrjun en náði að vinna sig til baka með mikilli seiglu og sigldi síðan örugglega framúr andstæðingnum og sigraði með töluverðum yfirburðum 13-5.
Í úrslitabardaganum fékk Arnar mun erfiðari andstæðing og var bardaginn í járnum allt fram til loka, en Arnar fór á endanum með sigur af hólmi, 7-5
Þetta er sannarlega glæsilegur árangur hjá Arnari á þessu geysisterka móti og sýnir enn og aftur svo ekki verður um villst að hann er einn af okkar allra bestu íþróttamönnum.