Í vikunni fer fram heimsmeistaramót í tækni (poomsae) í Tunja í Kólumbíu. Mótið fer fram dagana 6-9 desember og er keppt í einstaklingskeppni, parakeppni, hópakeppni og freestyle formi. Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúi frá Íslandi fer á heimsmeistaramót í poomsae en Írunn Ketilsdóttir 4. Dan í Ármann mun keppa í einstaklingskeppni í flokknum 40-49 ára. Í þeim flokki eru skráðir 17 keppendur frá jafn mörgum löndum. Írunn keppir á föstudaginn 7 desember.
Almennt um heimsmeistaramótið
Þetta er í fyrsta sinn sem heimsmeistaramót er haldið í suður Ameríku og í sjöunda sinn sem heimsmeistaramót í poomsae er haldið, en það fór fyrst fram árið 2006 í S-Kóreu. Kólumbíumenn eru ágætir í poomsae ef miða á við árangur Marco sem hreppti gull á síðasta heimsmeistaramóti og er hann skráður til leiks í ár.
Ólíkt heimsmeistaramótum í bardaga fer heimsmeistaramót í tækni (poomsae) fram á hverju ári en í bardaga annað hvert ár, og er þá Evrópumót haldið það ár sem ekki er haldið heimsmeistaramót. Í poomsae hinsvegar er Evrópumót haldið annað hvert ár, næst árið 2013.
Á heimsmeistaramótið í ár koma þjóðir frá fimm heimsálfum eða samtals 67 þjóðir og um 430 keppendur. Bandaríkjamenn senda 33 keppendur, Kólumbía 28, Þýskaland 25, S-Kórea 22, Spánn 20, Kína 18, Egyptaland 18 og Íran 17, svo eitthvað sé talið upp. Ef við horfum á nágrannaríki þá senda Danir 9 keppendur, Finnland 8, Norðmenn 4, Ísland 1 en Svíþjóð verður ekki með í þetta sinn. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland sendir fulltrúa á heimsmeistaramót í poomsae og veður spennandi að heyra um bæði árangur og þá reynslu sem er bæði ómetanleg og verðmæt til að elfa tækni og áhuga hér á landi.
Útsláttakeppni og dregin form
Á stórmótum eins og heimsmeistaramóti er útsláttakeppni, svo nefnt „Cutt-off system“. Fyrirkomulagið er þannig að hver hópur getur þurft að gera 8 form en það veltur á fjölda þátttakenda í hverjum flokki. Þessi 8 form eru misjöfn eftir flokkum og er þá farið eftir aldri. Í aldurshópnum 14-17 ára eru taeguk 4-8 og Koryo-Taeback. Í næsta flokki 18-29 ára eru taeguk 6-8 og Koryo-Shipjin, valmöguleikar færast s.s. um 2 form milli flokka. Í fokki 40-49 ára, sem Írunn mun keppa í, er Taeguk 8 og Koryo-Chonkwon. Þetta fyrirkomulag á einnig við á öllum A-mótum, Evrópumótum og Norðurlandamótum. Við þekkjum þetta að einhverju leiti á Íslandsmótum í tækni en þó höfum við ekki farið alla leið sökum vankunnáttu lægri belta á háum formum, en með tíð og tíma breytist það.
Á heimsmeistaramóti er keppt er í forkeppni (preliminaries) ef fjöldi er umfram 20 keppendur. Síðan koma undanúrslit (semi-final, fyrir keppendur milli 9-19) og úrslit eru svo fyrir þá 8 keppendur sem hafa komist í gegnum aðrar síur eða að flokkurinn hafi ekki náð skráningu umfram 8, þá er farið beint í úrslit. Í flokki Írunnar er fjöldi keppenda 17 og því er farið beint í undanúrslit, þessi flokkur mun því gera 4 form, 2 form í hverri umferð. Þetta fyrirkomulag er með öðrum hætti á A-mótum en þá hleypur hver umferð á 8 keppendum. Dregið er 2 dögum fyrir hvern keppnisdag, og verð formin sem Írunn mun keppa í dregin og birt 5 desember.
Í para- og hópakeppni er þetta hinsvegar ekki eins og í einstaklingskeppni. Í þessum keppnum er bara um 2 flokka að ræða, undir 29 ára og eldri en 29 ára. Í flokki þeirra sem eru yngri en 29 ára er dregið um form frá Taeguk 6-8 og Koryo-Shipjin en í flokki þeirra sem eru eldri en 29 ára er dregið um form frá Taeguk 8 og Koryo-Chonkwon. Það er því aldrei keppt í Hanso eða Ilio í para- eða hópakeppni.
Í free-style keppni eru 3 flokkar. Einstaklingskeppni (bæði kk og kvk), parakeppni og hópakeppni. Hér fá keppendur tækifæri til að búa til eigin form og gilda um það strangar reglur. Eingöngu má notast við taekwondo tækni og er þá vitnað í útgefna tækni af WTF. Fótatækni skal vera 60% og handatækni 40% og má það vera bland af varnar- og árásartækni. Til þess að gæta réttlætis í dómgæslu þarf að taka upp free-style form og senda 4 vikum fyrir mót. Þá hefur hópur dómara möguleika á að skoða formið og meta tækni, færni, nákvæmni, snerpu, takt, hraða og annað sem tilheyrir.
Verðlaunasæti
Veitt er gull verðlaun fyrir fyrsta sæti, silfur fyrir annað sæti og brons fyrir 3 og 4 sæti. Allir þeir sem komast í 8 liða úrslit fá viðurkenningarskírteini.
Hvað þarf til að keppa á heimsmeistaramóti í tækni?
Það eru nokkur skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta skráð sig á heimsmeistaramót:
– Ríkisborgararétt þess liðs sem skráð er til leiks
– Samþykki frá TKÍ
– Lágmarksbeltagráða er svartbelti (poom eða dan)
– Útgefið og gilt WTF keppnisleyfi (GAL)
– Lágmarksaldur 14 ára (og er þá miðað við keppnisár, ekki afmælisdag keppanda – í ár geta þeir sem fæddir eru 1998 og fyrr keppt á HM).
Hvað þarf annað?
– Sérstakan poomsae TKD galla (Dobok) sem þarf að merkja sérstaklega (með fána og ICE á baki)
– Belti má ekki vera of sítt, eða 10 cm. þurfa að vera á milli hné og beltisenda
– Tvo Íslenska fána í ákveðinni stærð.
– Íslenska þjóðsönginn
– Keppendur þurf að vera tryggðir
Í hvaða greinum er keppt?
– Einstaklingskeppni (kvenna og karla)
– Parakeppni (2 í hóp, verður að vera 1 kona og einn karl)
– Hópakeppni (3 í hóp, verður að vera af sama kyni)
– Freestyle form
- Keppt í einstaklings kvk og kk
- Parakeppni
- Hópakeppni (5 í liði, a.m.k. 2 konur og 2 karlar) – hér má s.s. fimmti liðsmaður vera af öðru hvoru kyninu
Hér eru upplýsingar um fjölda þátttakenda í hverjum flokki í einstaklingskeppni og free-style form:
Undirbúningur…
Það þarf langan og strangan undirbúning fyrir þátttöku á heimsmeistaramóti, með öðrum hætti eru minni líkur á að ná árangri. Írunn hefur æft undanfarinn mánuð tvisvar á dag og síðustu helgi kom Edina Lents og tók Írunni í einkaþjálfun. Æft var alla helgina og var lögð áhersla á hraða og takt í formum, ásamt réttri tækni. Ennfremur fór Edina vel yfir andlegan undirbúning enda þekkir hún vel hvernig það er að taka þátt á stórum mótum. Í hópi með Írunni eru sterkir einstaklingar sem hafa góða reynslu á stórum mótum og má þar helst nefna keppanda frá S-Kóreu hana Oh Kyeong-ran sem er í sýningarliði Kukkiwon, heimssambandi íþróttarinnar.
Allar nánari upplýsingar má finna á vef mótsins:
http://www.wtf2012tunja.com.co/index.php/en/
Við óskum Írunn góðs gengis og hlökkum til að heyra fréttir!
Áfram Ísland og taekwondo!