Æfingahelgi Meisams

 

 

 

U&E Kyorugi hópurinn naut mikilla vinsældasíðasta vetur og mættu yfir 50 krakkar á úrtökuæfingar til þess að komast í 15-20 manna hóp sem átti að velja. Niðurstaðan var sú að 23 voru valdir, því Meisam var í stórkostlegum vandræðum með að skera hópinn niður og vildi raunar halda mun fleirum. Því var ákveðið að skipta hópunum í tvennt eins og auglýst hefur verið þannig að fleiri komist að og einnig til þess að ekki sé of mikill aldursmunur á æfingunum. Er þetta hluti af útbreiðslustefnu TKÍ og einnig var kynnt átakið „Æfingahelgi Meisams“ síðastliðið vor. Nú er verið að hrinda þessum verkefnum í framkvæmd og vonast TKÍ eftir því að flest félög landsins taki þátt.

Útbreiðslustefnan felur í sér reglulegar heimsóknir landsliðsþjálfara til aðildarfélaga TKÍ. Frá og með haustönn 2012 geta félögin fengið úthlutað æfingahelgi í sínu félagi fyrir iðkendur sína. Æfingarnar eru skipulagðar með svipuðum hætti og U&E helgarnar, þar sem gert er ráð fyrir að æfingar séu á laugardegi og sunnudagi, alls fjórar æfingar.

Hlutverk æfinganna er m.a. að allir iðkendur og landsliðsþjálfari kynnist betur óháð því hvort iðkendurnir séu í U&E hópnum, landsliðinu, eða ekki. Allir iðkendur fá leiðsögn frá Meisam sem nýtist þeim öllum vel hvort sem þau eru að stefna á U&E, landsliðið eða hafa einfaldlega gaman af sparring og vilja bæta við þekkinguna. Æfingarnar henta öllum aldurshópum en hjá félögum með fleiri en 30 þátttakendur verður æfingum fjölgað í samræmi við aldursskiptingu. Þyrfti fjöldinn þó að vera a.m.k. 15 iðkendur í hverjum hóp.

Verðið fyrir hvern iðkanda eru 2500 kr.

Eftir að félög hafa sótt um æfingahelgi fá þau úthlutaðan tíma á haustönn 2012 og vorönn 2013. Með slíkum fyrirvara geta félög, foreldrar og iðkendur gert viðeigandi ráðstafanir svo allir hafi tækifæri til að mæta á æfingarnar í sínu félagi. Félög fá dagsetningu úthlutað eftir óskum og aðstæðum miðað við lausar helgar á dagatali TKÍ. Ef fleiri en eitt félag óskar eftir sömu tímasetningum verður dregið um helgarnar.

Þótt ungur sé hefur Meisam unnið 3 heimsmeistaratitla og er verðlaunahafi á mótum frá blautu barnsbeini. Má sem dæmi nefna að hann byrjaði að æfa Taekwondo aðeins 3 ára gamall og þekkir því afrekshópa krakka af eigin reynslu. Hann var með fast sæti í íranska landsliðinu, sem er núverandi heimsmeistari landsliða, áður en hann fluttist til Íslands. Auk þess hefur Meisam einstakt lag á að ná til ungra iðkenda og hvetja þá áfram ef marka má umræðuna sem hefur skapast í kjölfar ráðningar hans í starf landsliðsþjálfara.

Úrtökur fyrir U&E og landsliðið fara fram í byrjun hverrar annar. Því er þetta frábært tækifæri fyrir öll félög að njóta góðs af reynslu Meisams en einnig fyrir hann til að kynnast iðkendum á þeirra heimavelli. „Æfingahelgi Meisams” mun fjölga iðkendum sem mæta í úrtökurnar og því styrkja alla hópana. Þannig byggjum við upp sterkara og fjölbreyttara landslið til framtíðar.

Tekið er á móti skráningum og ósk um nánari upplýsingar á netfangið arnarb04@ru.is.

Með bestu kveðjum og ósk um góðar viðtökur.
Stjórn TKÍ.