Nýverið kom Master Sigursteinn Snorrason heim frá Kóreu, þar sem hann strafaði við þjálfun og tók jafnframt 6. dan.

Stjórn TKÍ óskar Sigursteini til hamingu með áfangan.

Annars byrtist ágætis samantekt af Kóreuferð Sigursteins á vef Taekwondodeildar Selfoss sem er hér að neðan.

Sigursteinn Snorrason fór út til s-Kóreu í byrjun apríl til að þjálfa afreksfólk í Taekwondo.  Hann var ráðinn sem landsliðsþjálfari Belgíu fram að heimsmeistaramótinu 2011 ásamt félaga sínum Phillipe Pinerd sem er einn þekktasti og virtasti þjálfarinn í greininni í heiminum í dag.  Saman voru þeir með sérvalin hóp af afreksmönnum og konum í Ólympíugreininni Taekwondo.  Í hóp þeirra voru verðlaunahafar á seinasta HM 2009 sem og keppendur á topp 5 í heiminum í mörgum þyngdarflokkum.

Sigursteinn er sérfræðingur í ketilbjölluþjálfun fyrir afreksíþróttamenn sem og í sprengikrafts- og liðleikaþjálfun.  Hann hefur verið landsliðsþjálfari Íslands til margra ára en hefur nú verið ráðinn sem þjálfari eins og áður segir til landsliðs Belgíu auk þess sem hann er sérstakur ráðgjafi hjá landsliðum Senegal, Mið-Afríku og í nokkrum háskólaliðum í s-Kóreu.

Eftir Heimsmeistaramótið tók við vinna að þróun nýs æfingakerfis sem er nú í prófunum í háskóla í Kóreu.  Sigursteinn er nú staddur hérlendis þar sem hann heldur áfram að vinna að æfingakerfinu þar sem hann mun fara aftur út til Asíu í ágúst til að halda áfram upptökum fyrir kennsluefni og fleira.

Auk þessa var Sigursteinn með kynningar á æfingakerfinu í nokkrum borgum Kóreu og voru viðtökurnar mjög góðar.  hann var með nokkra landsliðsmenn Kóreu í einkaþjálfun yfir vikutímabil og hann var einnig ráðinn sem ráðgjafi hjá einum virtasta Púmse skóla Kóreu.  Púmse eru æfingar gegn ímynduðum andstæðing, svokallað form.  Sigursteinn var einnig einkaþjálfari hjá Nathalie Uro-Pinerd en hún er silfurverðlaunahafi í formi og stefnir hún á gullið á heimsmeistaramótinu í júlí.

Meðal þeirra sem voru í einkaþjálfun hjá Sigursteini voru m.a. Balla Dieye, bronsverðlaunahafi á HM 2009.  Hann kemur frá Senegal og lofar hann æfingakerfi Sigursteins í hástert.  Einnig mætti Sérstaklega til Kóreu, Seifulla Magomedov frá Rússlandi en hann hefur m.a. unnið brons á HM 2011 og orðið margfaldur Evrópumeistari.  Hann er ein skærasta stjarna Rússlands í Taekwondo og hann hefur gert samning við Sigurstein þess efnis að Sigursteinn muni sjá um styrktar- og liðleikaþjálfun hans fyrir Ólympíuleikana 2012.  Ketilbjöllurnar koma upprunalega frá Rússlandi þannig að hér er um skemmtilega tilviljun að ræða.

Sigursteinn fer eins og áður segir aftur út til Kóreu í ágúst þar sem vinnan heldur áfram.  Möguleikarnir eru miklir og aldrei að vita nema hann flytji alfarið út með fjölskylduna og vinni þar í fullu starfi við Taekwondo þjálfun landsliðsmanna og kvenna.

Samhliða þessum þjálfunum og kynningum á æfingakerfi Sigursteins gerði hann sér lítið fyrir og tók 6. dan gráðu og er hann eini Íslendingurinn sem náð hefur þeim glæsilega árangri.