TKÍ hefur ákveðið að óska eftir tilnefningum í svartbeltisprófanefnd, og óskum því eftir að hvert félag tilnefni einn aðila í nefndina. Stjórn TKÍ mun tilnefna formann nefndarinnar.
Hlutverk svartbeltisprófanefndar verður að skipuleggja og fá aðila til þess að halda svartbeltispróf á vegum TKÍ, ásamt því að styðja við aðildarfélög sem vilja halda eigin svartbeltispróf en þurfa aðstoð til þess.
Svartbeltisprófanefnd skal leita samþykkis stjórnar TKÍ varðandi fjárútlát, ef kemur til álitamála, og í stórum málum svo sem hvar, hvenær og af hverjum próf skuli haldin.
Fyrsta verk svartbeltisprófanefndar verður að skipuleggja svartbeltispróf á vegum TKÍ sem verður haldið 25. – 26. maí 2017. Jamshid Mazaheri verður prófdómari. TKÍ óskar eftir því að þjálfarar próftaka sem þess óska og treysta sér til taki þátt í athöfninni.
Undir svartbeltisprófanefnd mun falla að sammælast við prófdómara um prófkröfur, skrásetja þær, varðveita þær til frambúðar og koma þeim til skila til próftaka. Einnig mun hún sjá um að útvega húsnæði fyrir próf. Hún mun útvega aðföng s.s. belti, skipuleggja hátíðarhöld, sjá um auglýsingar fyrir próf, og um útgáfu skírteina ásamt prófdómara og WTF. Nefndin mun taka við skráningum í beltapróf, og sjá til þess að ekki verði þjónusturof hjá TKÍ á þessu sviði í framtíðinni t.d. vegna erlendra reglugerðarbreytinga.
Svartbeltisprófanefnd verður skipuð til tveggja ára í senn. Ný svartbeltisprófanefnd tekur til starfa að loknu síðasta prófi hvers vetrar. Fráfarandi svartbeltisprófanefnd ber ábyrgð á að ný svartbeltisprófanefnd fái allan þann stuðning er þarf til þess að skiptingin gangi snurðulaust.