Æfingahelgi Meisams

 

U&E Kyorugi hópurinn hefur notið mikilla vinsælda í vetur og höfum við fundið fyrri mikilli ánægju með hópinn frá krökkunum sjálfum, þjálfurum þeirra og aðstandendum. Þegar núverandi hópur var valinn mættu yfir 50 krakkar á úrtökuæfingar til þess að komast í 15-20 manna hóp sem átti að velja. Niðurstaðan var sú að 23 voru valdir því Meisam var í stórkostlegum vandræðum með að skera hópinn niður og vildi raunar halda mun fleirum. Hópurinn inniheldur iðkendur á aldrinum 8-14 ára og æfa þau öll saman en jafnframt er samkeppni á milli þeirra yngri og eldri um sæti í hópnum. Þessu vill TKÍ breyta ætlar að fjölga hópunum í haust. Ný útbreiðslustefna TKÍ er því í mótun.

Útbreiðslustefnan felur í sér reglulegar heimsóknir landsliðsþjálfara til félaganna. Frá og með haustönn 2012 geta félögin fengið úthlutað æfingahelgi í sínu félagi fyrir sína iðkendur eingöngu. Æfingarnar eru uppsettar með svipuðum hætti og U&E helgarnar þar sem gert er ráð fyrir að æfingar standi yfir frá laugardegi til sunnudags eða alls fjórar æfingar.

Hlutverk þeirra er m.a. að allir iðkendur og landsliðsþjálfari kynnist betur óháð því hvort iðkendur séu í U&E hópnum, landsliðinu, eða ekki. Allir iðkendur fá leiðsögn frá Meisam sem kemur öllum vel hvort sem þau eru að stefna á U & E, landsliðið eða hafi einfaldlega gaman af sparring og vilja bæta við þekkinguna. Æfingarnar henta öllum aldurshópum en hjá félögum með fleiri en 30 iðkendur verður æfingum fjölgað í samræmi við aldursskiptingu.

Verðið fyrir hvern iðkanda eru 2500 kr.

Eftir að félög hafa sótt um fá þau úthlutaða æfingahelgi á haustönn 2012 og vorönn 2013. Með slíkum fyrirvara geta félög, foreldrar og iðkendur gert viðeigandi ráðstafanir svo allir hafi tækifæri til að mæta á æfingabúðirnar í sínu félagi. Félög fá sína dagsetningu dregnar út potti með öllum lausum helgum. Hægt verður að hliðra til helgum ef þess er óskað.
Á núverandi önn mun engin úthlutun fara fram og því geta félög sótt um æfingahelgi að eigin vali. Félög geta því nýtt sér allar lausar helgar (þær sem ekki eru fráteknar fyrir U&E) fram á sumar og ætti það að koma sér vel, sérstaklega með tilliti til Íslandsmeistaramótsins í mars og Bikarmótsins í apríl.

Þótt ungur sé er Meisam með 3 heimsmeistaratitla og verðlaunahafi á mótum allt frá blautu barnsbeini. Hann var með fast sæti í íranska landsliðinu, sem eru núverandi heimsmeistarar landsliða, áður en hann fluttist til Íslands. Auk þess virðist Meisam hafa einstakt lag á að ná til krakka og hvetja þau áfram ef marka má umræðuna sem hefur fylgt í kjölfar ráðningar hans í starfið.

Úrtökur fyrir U & E og landsliðið fara fram í byrjun hverrar annar. Því er þetta frábært tækifæri fyrir öll félög að njóta góðs af reynslu Meisams en einnig fyrir hann til að kynnast iðkendum á þeirra heimavelli. „Æfingahelgi Meisams” mun fjölga iðkendum sem mæta í úrtökurnar og því styrkja alla hópana. Þannig byggjum við upp sterkara og fjölbreyttara landslið til framtíðar.

Tekið er á móti skráningum á netfangið arnarb04@ru.is.

Með bestu kveðjum og ósk um góðar viðtökur.
Stjórn TKÍ.