Laugardaginn 13. apríl s.l. var haldið Millennium Open mótið í taekwondo í 7. sinn. Þetta mót er haldið á Millennium leikvanginum í Vrsac Serbíu, en þar hefur m.a. íslenska handboltalandsliðið keppt. Þrír taekwondo keppendur tóku þátt í mótinu fyrir Íslands hönd og stóðu sig með prýði. Það voru þeir Karel Bergmann Gunnarsson, Kristmundur Gíslason og Helgi Rafn Guðmundsson, en allir æfa þeir með Keflavík.

Karel tók fyrstur þátt og var hann í feiknisterkum unglingaflokki. Karel er m.a. margfaldur Íslandsmeistari og einn besti unglingakeppandi Íslands. Á þessu móti keppti hann í -63kg flokki unglinga. Hann barðist vel og sótti hart allan tímann en þurfti að láta í minni pokann fyrir sterkum serbneskum keppanda.
Kristmundur keppti næst. Kristmundur er á leiðinni á Evrópumót -21 árs sem verður haldið í Moldavíu næstu helgi. Þetta mót var liður í undirbúningi fyrir það mót, en Kristmundur var m.a. valinn taekwondomaður ársins á síðasta ári. Kristmundur keppir í -87kg flokki. Í fyrsta bardaga mætti hann hávöxnum keppanda frá Serbíu. Kristmundur stjórnaði bardaganum alveg frá upphafi og sótti vel. Andstæðingur hans virtist missa sjálfstraustið eftir sem leið á bardagann enda átti hann engin svör við árásum Kristmundar. Lokatölur voru 3-0 Kristmundi í vil. Kristmundur var þá kominn í undanúrslit og keppti næst við mjög sterkan andstæðing. Bardaginn var hnífjafn allan tímann en í lok bardagans átti andstæðingurinn góðar sóknir og kláraði bardagann sterkt. Kristmundur tapaði því þessum bardaga en fékk bronsverðlaun í sínum flokki.
Helgi keppti síðastur íslensku keppendana. Helgi er þjálfari Keflavíkur sem hefur verið sigursælasta lið á íslandi síðustu ár og er nú að keppa aftur eftir langt hlé frá keppni vegna meiðsla. Í fyrsta bardaga þá náði Helgi yfirhöndinni strax í byrjun fyrstu lotu og hélt forystunni allan bardagann. Bardagainn endaði 4-2 honum í vil. Helgi var þá kominn í úrslit og keppti næst við Serbneskan landsliðsmann. Serbinn var mjög sterkur og skoraði góð stig á Helga. Helgi tapaði bardagnum 16-4 og fékk silfurverðlaun.
Einnig með í för voru Meisam Rafiei landsliðsþjálfari, Haukur Skúlason og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir. Öll tóku þau þátt á frábærum æfingabúðum á vegum landsliðsþjálfara Serbíu, en nú hafa Íslendingarnir verið í Serbíu í tæpa viku við æfingar og undirbúning. Nú eru Ingibjörg og Kristmundur ásamt Meisam á leið til Moldavíu til að taka þátt í Evrópumóti -21 árs. Þau hafa æft vel og eru í góðu formi fyrir mótið. Kristmundur keppir á fimmtudag í -87kg flokki og Ingibjörg keppir í -62kg flokki á föstudag.