NM í Taekwondo 2012

Norðurlandamótið 2012 var haldið í Malmö í Svíþjóð að þessu sinni. Uppsetning mótsins var með öðru sniði en áður og var aðal breytingin sú að nú var félögum heimilt að senda keppendur en ekki bara landsliðin. Þetta olli því að keppendur voru mun fleiri en áður í fjölmennustu flokkunum en þetta aftur á móti ruglaði keppni landsliða vegna þess að í staðinn fyrir 5 landslið voru aðeins skráð 3 landslið og síðan fullt af öðrum félögum. Á fundi formanna daginn fyrir mót var samhljóma ákveðið að þetta fyrirkomulag verði ekki notað aftur heldur verði aðeins landslið sem keppa á næsta ári og aðeins að hámarki 2 keppendur í hverjum flokki frá hverju liði, eins or verið hefur hingað til. Einnig var ákveðið að mótið verður haldið síðustu helgina í maí á hverju ári.

Íslenska liðið var stærra en nokkru sinni fyrr eða 21 keppandi og 2 dómarar og taldi heildar hópurinn um 30 manns.

Hópurinn kom á hótelið rétt tímalega til þess að tékka inn og fara síðan í skráningu og viktun. Stóðust allir viktunina í fyrstu tilraun og var því farið strax að viktun lokinni í næstu verslunarmiðstöð til þess að finna eitthvað gott að borða þar sem meirihluti Kyorugi liðsins var nánast ekkert búinn að borða allan daginn fram að viktuninni. Að því loknu týndist fólkið smám saman á hótelið og fóru flestir snemma að sofa nema Kyorugi þjálfaranir sem voru að bíða eftir bardagatrjánum til um 22.30. Þegar þau voru síðan birt kom í ljós að Arnar og Daníel höfðu verið settir á móti hvorum öðrum í byrjun sem að hefur aldrei tíðkast áður, þ.e.a.s. að setja 2 keppendur í sama liði á móti hvorum öðrum í byrjun. Tókst að fá þessu breytt rétt fyrir miðnætti.

Arnar Bragason úr Aftureldingu mætti fyrstur á gólfið strax í fyrsta bardaga og það á móti Finna. Finninn byrjaði með látum og náðu frumkvæðinu í byrjun en Arnar var aldrei langt undan. Í lokin komst Arnar yfir með góðu baksparki og hélt forystunni til enda þrátt fyrir að Finninn sótti grimmt í lokin. Lokastaða 7-5 fyrir Arnari.

Eftir frekar stutt hlé var Arnar aftur kallaður á gólfið, nú á móti danska risanum Rasmus en hann er eitthvað um 200 cm á hæð. Arnari gekk ekki vel að ráða við Rasmus sem að jók forskotið jafnt og þétt til loka og endaði bardaginn 8-1 fyrir Dananum.

Daníel Jens Pétursson úr Selfossi var næstur en andstæðingur hans mætti ekki þótt hann hafi mætt í viktunina daginn áður. Hann hefur kannski séð Danna vera að hoppa yfir bíla fyrir utan höllin eftir viktunina?

Daníel keppti við Finna næst. Var sá bardagi mjög jafn og voru báðir mjög varkárir. Í stöðunni 2-1 fyrir Finnanum og 23 sekúndur eftir nær Danni höfuðsparki sem á að gefa 3 stig. Dómaranir gefa honum ekki stigin þannig að Meisam Rafiei, landsliðsþjálfari, fer fram á „video replay“ þar sem skoðuð er upptaka til þess að skera úr um hvort um stig var að ræða. Voru Íslendingarnir nokkuð vissir um góða niðurstöðu og því 4-2 stöu fyrir Danna og bardaginn nærri því búinn. En af óskiljanlegum ástæðum úrskurða dómaranir að þeir geti ekki staðfest höfuðsparkið! Eina skýringin sem að við getum komið með er sú að þeir voru bara með eina upptökuvél og hún ekki dugað. Til eru upptökur sem að sýna klárlega hið gagnstæða en því miður er ekki hægt að hnekkja niðurstöðunni. Danni reynir að jafna á lokasekúndunum en það tekst ekki og því niðurstaðan 2-1 fyrir Finnanum sem fór síðan alla leið í úrslit og mætti þar Dana sem að Danni hafði unnið í öðru móti síðasta haust. Mjög svekkjandi niðurstaða fyrir Danna sem er búinn að vera í mikilli uppsveiflu síðasta árið.

Jón Steinar Brynjarsson keppti við Svía fyrst og stjórnaði bardaganum frá upphafi. Smám saman stakk Jón hann af og vann að lokum af miklu öruggi 15-6. Frábær árangur.

Jón Steinar mætir Dana næst. Gömul meiðsli tóku sig upp í fyrri bardaganum hjá Jóni og var hann því þrælteipaður en tilbúinn að keyra þetta á hörkunni. Daninn reynist firnasterkur og Jón stenst honum ekki snúning meiddur á rist og vinnur Daninn 13-3. Jón endar því í 3. Sæti.

Kristmundur var næstur en hann lenti í því að vera skráður í þungavikt unglinga, enda aðeins 16 ára, en enginn annar skráði sig í flokkinn. Þar sem að Kristmundur hefði þurfta að léttst um 13 kíló til þess að fara niður í næst þyngdarflokk, sem er útilokað á 2 vikum, þá var ekki um annað að ræða en að færa hann upp í fullorðinsflokk. Hann létti sig um 4 kíló og fór niður í -87kg. Vitað var að róðurinn yrði þungur enda mjög sterkur flokkur. Andstæðingurinn var Finni sem var nokkuð stærri en Kristmundur og reyndist hann firnasterkur. Finninn jók forystuna jafnt og þétt þó svo að Kristmundur gæfi ekkert eftir og reyndi látlaust að sækja á hann. Sótti hann svo hart að Finnanum að eftir bardagann var farið að tala um að „taka Kristmund á andstæðinginn“ ef að spörk lentu full neðalega og enduðu á viðkvæmum stað. Finninn vann að lokum 11-0.

Viktor Ingi Ágústsson úr Aftureldingu var næstur. Viktor er á 15. Ári og keppir í flokki 15-17 ára. Hann fékk Dana sem var langbesti keppandinn í flokknum og átti raunar aldrei séns þrátt fyrir góða baráttu allan tímann, en auk þess hefur Viktor verið að berjast við meiðsli við undirbúning mótsins. Var hreinlega ótrúlegt að horfa á Danann taka 360 hringspörk og fleira í bardaganum sem endaði 14-1 fyrir Dananum. Viktor er á fyrsta ári í þessum aldursflokki og verður því í 2 ár í viðbót í flokknum og á klárlega eftir að láta til sín taka í flokknum síðar.

Kristín Björg Hrólfsdóttir úr Selfossi var næst á gólfið. Hún keppti við sænska stelpu og var bardaginn í járnum allt til loka. Sú sænska komst þó yfir og var komin í 4-1 þegar að Kristín nær góðu höfuðsparki sem að ætti að jafna bardagann í 4-4. En af óskiljanlegum ástæðum fær hún ekki höfuðsparkið gilt og Meisam var búinn að missa „video replay“ kortið þannig að ekkert var hægt að gera. Þetta var í síðustu lotu því ekkert annað að gera en að reyna að berjast til síðasta blóðdropa í þeirri von að ná inn nokkrum stigum. Það tekst ekki og endar bardaginn 7-2 fyrir Svíanum.

Ingibjörg Erla Grétarsdóttir úr Selfossi var næst á gólfið, en hún sat hjá í fyrstu umferð og fór raunar beint í úrslit á móti sænsku stelpunni sem að vann Kristínu naumlega. Með loforð um að hefna harma Kristínar kom Ingibjörg mjög einbeitt inn á gólfið og komst yfir í byrjun. Aftur á móti kom sú sænska til baka og komst yfir 5-4 Íslendingunum til mikillar skelfingar. En það var engu líkara en að Ingibjörg hafi bara verið að stríða okkur hinum Íslendingunum í höllinni því í 3. lotu afgreiddi Ingibjörg þá sænsku eins og hún væri byrjandi og lokastaðan 10-6 fyrir Ingibjörgu og hún orðin Norðurlandameistari annað árið í röð á sínu fyrsta ári í fullorðinsflokki, en það er mjög sjaldgæft!! Ljóst er að framtíðin hjá Ingibjörgu er björt en það er engin tilviljun að hún er að ná svona góðum árangri enda hún með mikinn sjálfsaga hvað æfingar varðar en hún er með 100% mætingu á landsliðsæfingar frá því í janúar þrátt fyrir slæm meiðsli sem hafa háð henni í byrjun ársins.

Ingibjörg var síðasti keppandi laugardagsins en það voru aðeins flokkar 15 ára og eldri sem voru keyrðir á laugardeginum en á sunnudeginum voru keyrir flokkar 14 ára og yngri og allir Poomsae flokkarnir. Eftir að Ingibjörg lauk keppni fóru íslensku keppendurnir aftur upp á hótel til þess að losa sig við íþróttafötin og fara í sturtu og sumir að leggja sig. Margir fóru í hlaðborð á hótelinu en hluti af hópnum rölti niður í bæ til þess að losna við setuförin af afturendanum og einhvern vegin þróaðist leiðangurinn yfir í heilaga leit af pizzastað. Eftir meira en klukkutíma leit fannst loksins pizzastaður og var borðað þar. Af því loknu var haldið á hótelið, sumir að sofa og aðrir að spjalla við aðra keppendur, þjálfara og dómara á bar hótelsins og enn aðrir að skoða í einhverjar búðir.

Sunnudagurinn rennur upp og við komuna á staðinn tökum við eftir hinum danska Frederic a.k.a. „The Taekwondo kid“ þar sem hann var að hita upp. Að horfa á þennan 10 ára krakka taka snúningsspörkin og margföld spörk er ótrúlegt. Tæknin, hraðinn og krafturinn virðist eins og hjá fullorðnum topp-keppanda, enda talinn vera sá besti í heimi í sínum flokki. Við sáum hann síðan vinna sinn fyrsta bardaga 12-0 á einni lotu.

Ágúst Kristinn Eðvaldsson úr Keflavík var næstur á gólfið. Hann er aðeins 11 ára og að keppa í sínu fyrsta erlenda móti. Ágúst kom mjög einbeittur til leiks gegn finnskum strák og var virkilega gaman að sjá að hann vissi nákvæmlega hvað hann ætlaði að gera og framkvæma það óaðfinnanlega. Hann vann öruggt 10-4 og þegar hann kom út úr bardaganum var eins og hann hefði bara labbað hring í höllinni, blés ekki úr nös og pollrólegur.

Næsti bardagi var töluvert erfiðari því hann mætti hinum danska Frederic „The Taekwondo kid“ í úrslitum í sínum flokki. Þrátt fyrir að vera fullkunnugt um feril andstæðingsins var Ágúst pollrólegur og mætti Frederic óhræddur. Yfirburðir þess danska voru töluverðir en Ágúst gaf ekkert eftir og gafst aldrei upp og elti Frederic allan tímann þannig að hann átti eingan kost annan en að bakka og svara Ágústi. Þó fór svo að Daninn vann 14-1, en þetta var fyrsta stigið sem að hann hafði fengið á sig í síðustu 6 mótum!!! Ágúst fékk því verðskuldað silfur.

Næst keppti Dagný María Pétursdóttir úr Selfossi. Hún keppti á móti sterkum andstæðingi sem að komst yfir við lok fyrstu lotu. Dagný sótti þá á hana en náði ekki að minnka muninn en hin komst í 2-0. Dagný herti þá sóknina sem stóð allt til enda en náði ekki að skora og lokastaða 3-0. Dagný gafst þó aldrei upp og sótti allt til enda.

Síðan keppti tvíburabróðir Dagnýjar, Davíð Arnar Pétursson, úr Selfossi við finna. Davíð kom mjög einbeittur inn í bardagann og komst í 2-0 í fyrstu lotu. Í annarri lotu kom Finninn tvíefldur til baka og náði að jafna 2-2. Danni átti tvöfalt spark og var sparkið 17 í kraft en þurfti 18 til að fá stigið. Þegar nokkrar sekúndur voru eftir ætlaði Davíð að reyna að klára málið til þess að þurfa ekki framlengingu en þá náði andstæðingurinn að svara og komast í 3-2 þegar 1-2 sekúndur voru eftir og bardaginn kláraðist þannig. Hrikalega svekkjandi þar sem Davíð var klárlega betri aðilinn. Davíð á greinilega mikið inni.

Svanur Þór Mikaelsson úr Keflavík var næstur á gólfið og keppir við Svía. Svanur sækir á Svíann en á erfitt með að skora enda Svíinn töluvert stærri en svanur. Svíinn kemst yfir fljótlega og Svanur sækir stöðugt á hann en nær ekki að minnka muninn þrátt fyrir harðar atlögur. (mig vantar lokatölurnar)

Ástrós Brynjarsdóttir úr Keflavík byrjaði á móti sænskri stelpu í fyrsta bardaga. Ástrós stjórnaði bardaganum frá upphafi og jók forystuna smátt og smátt í gegnum bardagann. Lokastaðan var 4-1 fyrir Ástrósu sem að kom henni í úrslit í sínum flokki.

Í næsta bardaga fékk Ástrós aðra sænska stelpu sem var sterkari en sú fyrri. Var bardaginn í járnum allan tímann og var jafn fram í síðustu lotu. Í síðustu lotunni náði sú sænska að skora 2 stig og knýja fram sigur en Ástrós sótti hart í tilraun til þess að jafna en varð að lokum að játa sig sigraða. Ástrós fékk silfur eftir frábæra frammistöðu.

Karel Bergmann Gunnarsson úr Keflavík var næstur og mætti Svía. Svíinn var sterkur og mættust því stálin stinn þar sem Karel kallar ekki allt ömmu sína. Svíinn kemst yfir í 1-0 en Karel svarar með því að svö þungu höggi að Svíinn hendist afturábak og skoppar á rassinum eftir gólfinu en af einhverjum ástæðum sáu dómaranir ekki ástæðu til þess að gefa honum stig, sem að þeir klárlega áttu að gera. Íslenska liðið og Meisam lét óánægju sína í ljós en bardaginn hélt áfram og komst Svíinn í 2-0. Þá gerist það aftur að Karel kýlir Svíann í gólfið og enn ekki stig og íslenska liðið öskra allir sem einn á dómarana og Meisam lætur óspart í sér heyra og gefur dómurunum bendingar um að þetta eigi klárlega að vera stig. Þá loksins stendur einn dómarinn upp og boðar til dómarafundar á gólfinu. Að fundi loknum hélt bardaginn áfram en Karel fékk engin stig en þetta virðist hafa vakið dómarana þar sem Karel fékk stig fyrir næsta högg þó að það hafi ekki sent Svíann í gólfið, 2-1. Eftir þetta skiptast þeir á höggum og fer staðan í 3-3 og allt í járnum. Síðan rétt í lokin fær Karel refsistig sem að við áttum okkur ekki á fyrir hvað var en það koma Svíanum yfir 4-3 sem að var síðan lokastaða bardagans. Karel sat því eftir og endaði í 3. sæti en Svíinn fór áfram í úrslit og vann úrslitabardagann örugglega og varð Norðurlandameistari. Aftur var okkar keppandi rændur sigrinum með slakri dómgæslu, en Karel mun klárlega mæta tvíefldur næst.

 

Að þessu sinni sendi Ísland ellefu keppendur til leiks í poomsae. Poomsaekeppnin fór fram á sunnudeginum og var því góður tími fyrir liðið til þess að koma sér í gírinn með því að hvetja íslensku sparringkeppendurna áfram á laugardeginum.

Keppnisformin voru dregin um sex-leytið á laugardeginum og var kvöldinu eytt í lokaæfingar í hótelgarðinum. Átti ísland fulltrúa í hérumbil öllum aldursflokkum.

 

Fyrst út á gólf á sunnudeginum var Guðrún Vilmundardóttir frá Selfossi. Hún var að keppa á sínu fyrsta móti erlendis. Mikið basl var að fá rétt yfirlit yfir poomsaeflokkana á mótinu og stóð Guðrún lengi í þeirri meiningu að hún ætti að keppa í svartbeltisflokki og var þá búin að læra 5 ný poomsae fyrir mótið. Það fór þó svo að hún keppti í kup flokki ásamt keppanda frá Danmörku. Guðrún keppti í taegeuk ohjang og yukjang og hlaut fyrir það meðaleinkunnina 4.055 og hafnaði í 2. sæti.

 

Næst keppti Ástrós Brynjarsdóttir úr Keflavík, en keppti hún bæði í sparring og poomsae á mótinu. Ástrós var að keppa erlendis í fyrsta skipti og stóð sig frábærlega. Hún keppti í 11-13 ára aldursflokki og voru fimm í flokknum. Ástrós keppti í taegeuk yukjang og sajang og tryggði sér 3. sætið með 6.35 í meðaleinkunn.

 

Næstur keppti Svanur Þór Mikaelsson, einnig úr Keflavík og einnig að keppa erlendis í fyrsta sinn. Svanur keppti einnig í 11-13 ára aldursflokki og voru þrír í þeim flokki. Svanur hreppti þriðja sætið með 4.98 í meðaleinkunn fyrir taegeuk paljang og chiljang.

 

Síðan hófst keppni í junior flokkum og átti Ísland þar tvo keppendur. Þau Sverri Örvar Elefsen úr Keflavík og Sveinborgu Körlu Daníelsdóttur úr Þór. Sverrir var að keppa erlendis í fyrsta sinn og keppti í gríðarlega sterkum flokki en junior og senior dan flokkarnir eru yfirleitt sterkustu og stærstu flokkarnir. Sverrir var síðastur út á gólf af tólf keppendum og stóð sig með stakri prýði þó hann hafi ekki komist áfram í úrslitin. Sverrir lenti í 12. sæti með meðaleinkunnina 3.87 fyrir poomsae koryo og taegeuk ohjang.

 

Næst keppti Sveinborg Katla frá Þór er var þetta hennar annað mót erlendis en hún keppti síðast með landsliðinu á Belgian Open. Sveinborg keppti einnig í mjög sterkum flokki. Í flokknum voru 15 keppendur og var því byrjað á undanúrslitum þar sem bestu átta fara áfram í úrslitin. Í fyrstu umferð keppti Sveinborg í poomsae keumgang og taegeuk ohjang og hlaut fyrir það meðaleinkunnina 5.29 og dugði það henni til þess að komast í úrslitaumferðina. Gríðarlega vel af sér vikið! Í úrslitum var keppt í taegeuk chiljang og yukjang og fékk Sveinborg 5.405 í meðaleinkunn þar og endaði í 8. sæti í flokknum.

 

Það er greinilegt að að framtíðin er björt í poomsae á Íslandi miðað við árangur þessara ungu keppenda. Við bindum miklar vonir við þau og trúum því að þau muni standa sig gríðarlega vel á komandi mótum.

 

Síðan tók við keppni í senior flokkum.

Átti Ísland þar 3 keppendur, þau Huldu Rún Jónsdóttur úr ÍR, Hildi Baldursdóttur úr Ármanni og Hauk Fannar Möller frá Þór.

Haukur var að keppa erlendis í fyrsta sinn en hann hefur keppt mikið í poomsae hérlendis. Hann keppti í 9 manna flokki og var byrjað á undanúrslitum. Þar var keppt í poomsae pyongwon og taegeuk yukjang og hlaut Haukur fyrir það meðaleinkunnina 5.52 og fór áfram í úrslitaumferðina. Þar fékk Haukur meðaleinkunnina 5.57 fyrir poomsae koryo og keumgang. Haukur hafnaði í 8. sæti í sínum flokki.

 

Hulda keppti í 15 manna flokki og hlaut meðaleikunnina 5.77 fyrir poomsae keumgang og koryo. Þetta dugði því miður ekki til þess að komast í úrslitin en Hulda hafnaði í 10. sæti. Hildur þurfti því miður að draga sig úr einstaklingskeppni vegna gamalla meiðsla sem tóku sig upp aftur.

 

Næst tók við keppni í mastersflokki I og átti Ísland þar 3 keppendur. Þau Antje Möller úr Ármanni og Jakob Antonsson úr ÍR sem voru að keppa í mastersflokkum í fyrsta sinn og Írunni Ketilsdóttur úr Ármanni.

Jakob keppti í 4 manna flokki og keppti því einungis í úrslitaumferðinni. Keppt var í poomsae keumgang og tegeuk chiljang og hlaut Jakob meðaleinkunnina 5.92 og lenti í 4. sæti. Þess má geta að sá sem fékk 3. sætið var með einkunnina 5.95!

 

Antje og Írunn  kepptu í sama flokki og fóru beint í úrslitin þar sem einungis 6 voru í flokknum. Keppt var í poomsae jitae og pyongwon og hlaut Antje meðaleinkunnina 5.92 og Írunn hlaut einkunnina 6.58. Antje hreppti 5. sæti á meðan Írunn hlaut 3.sæti.

 

Næst tók við keppni í parakeppni.

Keppt var í tveimur paraflokkum, þ.e 14-29 ára og 30+ ára. Ísland átti 3 pör í fyrri aldursflokknum og eitt í þeim seinni.

Pörin voru eftirfarandi:

Pair I

Haukur Fannar Möller og Hildur Baldursdóttir

Sverrir Örvar Elefsen og Sveinborg Katla Daníelsdóttir

Svanur Þór Mikaelsson og Ástrós Brynjarsdóttir

Öll pörin kepptu í poomsae koryo og taegeuk yukjang í undanúrslitum og komust Haukur og Hildur (5.15) áfram ásamt Svani og Ástrósu (5.4). Sverrir og Sveinborg (5.07) komust því miður ekki áfram og höfnuðu í 9.sæti. í úrslitum var keppt í taegeuk chiljang og poomsae taebeak. Haukur og Hildur hlutu meðaleinkunnina 5.7 á meðan Svanur og Ástrós fengu 5.3. Þau höfnuðu því í 7. og 8. sæti.

Pair II

Jakob Antonsson og Írunn Ketilsdóttir fóri beint í úrslitaumferðina og kepptu í taegeuk paljang og poomsae chonkwon. Þau voru bæði að keppa í poomsae chonkwon í fyrsta sinn og hlutu meðaleinkunnina 5.4 og höfnuðu í 5. sæti.

Að lokum var keppt í hópapoomsae og átti Ísland þar einn hóp í aldursflokknum 14-29 ára.

Hildur, Hulda og Sveinborg kepptu saman í hópapoomsae og fóru beint í úrslitaumferðina ásamt liði frá Finlandi. Keppt var í poomsae koryo og taegeuk chiljang. Hlaut hópurinn meðaleiknunnina 5.72 og missti af 1.sætinu með aðeins 0.07 stigum!

 

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í poomsaelandsliðinu undanfarið ár og er árangur liðsins á NM2012 gott merki þess að nokkuð vel hafi tekist til. Uppbyggingunni er langt frá lokið og mikilla tæknilegra breytinga er þörf til þess að Ísland geti haldið í við aðra norðurlandaþjóðir. Landsliðið stóð sig þó með eindæmum vel og lætur ekki deigan síga þó á móti blási. Poomsaelandsliðið samanstendur af sterkum og metnaðargjörnum hópi sem mun eflaust ná langt á næstu árum.

 

Arnar Bragason og Hulda Rún Jónsdóttir