Ferðaskýrsla Kyorugi landsliðs til Skotlands

Föstudaginn 16 nóvember hélt einvalalið úr Kyourugi landsliðinu, og U&E Kyorugi cadette, á Scottish Open í Motherwell í Skotlandi. Keppnishópurinn var 12 manns, sem keppa í 14 flokkum ásamt þjálfurum, foreldrum og öðrum, samtals 18 manns. Keppnishópurinn var leiddur af landsliðsþjálfaranum í Kyorugi, Meisam Rafiei, sem er að gera frábæra hluti með landsliðsfólkið okkar og einnig krakka og unglingahópunum. Í þessari ferð var Senior og Junior landsliðið ásamt nokkrum krökkum úr Cadette flokki sem að Meisam hafði valið og boðið að koma með á þetta mót.

Flogið var til London kl. 7 um morguninn og síðan þaðan til Glasgow þar sem við vorum sótt og keyrð beint í vigtun. Voru margir orðnir ansi svangir og þyrstir þegar á leiðarenda var komið vegna þess að þeir þurftu að passa þyngdina. Sluppu allir í gegnum vigtunina, en munaði aðeins 100gr. þar sem minnst munaði. Eftir það var öllum skutlað á hótelið og síðan labbaði hópurinn í bæinn og fékk sér að borða.

Hópurinn var sóttur á hótelið kl. 9 á laugardagsmorgninum og keppni hófst klukkan 10. Mótið var auglýst á vefnum og var notað kerfi sem nefnist Taekoplan. Í öllum auglýsingunum og Taekoplan er bara talað um Kyorugi keppni en aldrei Poomsae. Síðan um morguninn rétt áður en Kyorugi keppnin hófst frétti liðið af því að einnig var Poomsae keppni á mótinu. Rokið var í það að athuga hvort að við gætum komið okkar keppendum í Poomsae keppnina og ætluðu mótshaldaranir að funda um það og láta vita. Eftir smá bið var ákveðið að sækja keppnisgallana á hótelið og til þess að vera tilbúin til keppni í poomsae ef að leyfið fengist. Var það eins gott vegna þess að þegar að leyfið fékkst voru ekki nema 10 mínútur í keppni hjá fyrsta keppanda.

Svanur, úr Keflavík, var fyrsti keppandinn í Poomsae og fór hann með hæstu einkunn inn í úrslit og vann að lokum sinn flokk. Fyrsta gullið í höfn. Næst var Ástrós, úr Keflavík, og var sama sagan þar á ferðinni og vann hún einnig sinn flokk. Var fólk nú farið að taka eftir íslensku keppendunum sem að komu óvænt á síðustu stundu inn í keppnina og vinna síðan 2 fyrstu flokkana. Næstur var Sverrir, einnig úr Keflavík, sem að er 1 ári eldri og þurfti því að keppa við keppendur sem flestir voru nokkrum árum eldri en hann. Stóð hann sig þó frábærlega og náði 3. sæti. Þegar þarna var komið var Helga, þjálfara Keflvíkinga, sem fór með liðinu sem coach, farið að langa að vera með, enda nýkrýndur Íslandsmeistari í Poomsae. Var það sama sagan með hann að hann fékk að keppa og skutust nú Kristmundur og Jón Steinar uppá hótel og náðu í keppnisgallana sína til þess að lána Helga, eftir því hvor gallinn passaði betur. Skipti engum togum að Helgi vann sinn flokk með yfirburðum.  Aðeins seinna kepptu Svanur og Ástrós í parakeppni og unnu einnig sinn flokk. Unnu Íslendingarnir því 4 gull og 1 brons í Poomsae. Verður það að teljast einstakur árangur að Kyorugi landsliðið fari til keppni erlendis, eingöngu til keppni í Kyorugi en komi til baka með 4 gull og 1 brons í Poomsae J. Og enn er einn keppandi eftir í Poomsae, en Bjarni keppir í lægri gráðu flokki á sunnudeginum. Frammistaða Íslendinganna vakti mikla athygli og sagði yfir-Poomsae dómarinn eftir keppnina að það vakti hans athygli hvað Íslendingarnir hafi verið vel inni í öllum nýjustu breytingum sem að WTF hefur sent frá sér og tileinkað sér þær vel. Gefur þetta komment frá alþjóðlegum Poomsae dómara góða einkunn á Poomsae þjálfarana okkar á Íslandi og það starf sem verið er að vinna í því að bæta Poomsae hæfni okkar helsta keppnisfólks. Framtíðin er því björt á þeim vettvangi.

Á bardagasvæðinu var keppni iðkenda í svokölluðum B-flokki, sem er fyrir þá keppendur sem eru með 3. kub eða lægri gráðu og var Hrafnhildur úr Björk fyrst á gólfið. Kom upp ágreiningur um gráðu hennar, sem var á misskilningi byggt. Hennar belti, rautt með 1 svartri rönd er 3 kub hjá okkur en 1. Kub hjá Bretunum sem að hefði þýtt að hún ætti að keppa í hærri gráðu flokki með svartbeltingunum. Ekkert gekk að fá þetta samþykkt fyrr en okkar coach talaði beint við hinn coach-inn að hann samþykkti að lokum að bardaginn færi fram. Hin stúlkan reyndist síðan firnasterk og gekk illa hjá Hrafnhildi að koma höggum á hana þannig að hún varð að játa sig sigraða að lokum. Endaði hún því í 3-4 sæti í sínum flokki. Strax á eftir henni keppti Aníta, einnig frá Björk. Í hennar flokki voru aðeins 2 keppendur, Aníta og stúlka frá Ísrael. Þó að sú ísraelska hafði verið að sýna fullt af „fancy“ spörkum í upphituninni átti hún aldrei séns í Anítu. Aníta náði fljótlega góðu höfuðsparki sem að gaf tóninn fyrir því sem að koma skyldi og hélt hún því einfaldlega áfram þar til hún var komin með 12 stiga forskot og bardaginn stöðvaður. Yfirburða sigur á 12 stiga reglunni sem að segir að ef að keppandi er með 12 stiga forskot eftir 2 lotur fer 3. lotan ekki fram heldur er lýstur sigurvegari með 12 stiga mun. Ef að 12 stiga munur næst einhvern tíma í 3. lotu er bardaginn þegar stöðvaður og sigurvegari lýstur.

Næstur á gólfið var Vésteinn úr Ármanni. Aðeins voru 2 í hans flokki, Vésteinn og 1 annar keppandi. Var þetta lang mest spennandi bardagi Íslendinganna þennan dag. Skiptust þeir á að vera yfir allan tímann og endaði bardaginn siðan 18-17 fyrir hinum. Munaði sorglega litlu á þeim og hefði þetta alveg eins getað farið á hinn veginn.

Síðasti íslenski keppandi dagsins var Bjarni úr Keflavík. Byrjaði bardaginn jafnt en eftir stutta stund náði Bjarni höfuðsparki sem að gaf honum mikið boost á sjálfstraustið, en hinn náði að svara í sömu mynt. En eftir þetta var Bjarni kominn í ham og raðaði inn höfuðspörkunum, og meðal annars hringsparki(dví-húríóchagi), sem að andstæðingurinn átti engin svör við og endaði Bjarni á því að vinna með 12 stiga reglunni.

Þannig lauk keppni fyrri keppnisdagsins og hópurinn fór beint uppá hótel í sturtu og síðan á Subway að fylla á eldsneytistankana. Eftir það var farið upp á hótel til þess að skipuleggja seinni keppnisdaginn og hvíla keppendurna.

Frábær árangur fyrri dagsins:

6 gull, 1 silfur og 2 brons J

 

Að kvöldi laugardags komu bardagatrén inn fyrir sunnudag og kom í ljós að það yrði annasamur dagur fyrir íslensku keppendurnar á sunnudeginum. Margir áttu að keppa á svipuðum tímum á þeim þremur gólfum sem keppt var á. Allir sem gátu coachað voru nýttir að fullu.

Svanur Þór úr Keflavík átti fyrsta bardaga. Hann keppti þar við hærri strák með svart belti. Bardaginn var mjög jafn og spennandi. Svanur var lengi í gang í fyrstu lotu en fann svo taktana og náði nokkrum góðum árásum og höfuðspörkum sem kom andstæðingnum úr jafnvægi. Svanur sigraði bardagann 21-17.

Næstur á gólfið var Jón Steinar úr Keflavík. Jón var í fjölmennasta flokknum á mótinu, en það þurfti að sigra 4 bardaga til að vinna flokkinn. Andstæðingur Jóns var sterkur og náði fyrsta stiginu í brynjuna en Jón lét það ekki slá sig út af laginu og svaraði með góðu höfuðsparki og komst þá í 3-1. Það sem eftir var að lotu 1 og í annari lotu jók Jón muninn og var kominn í 6-1 eftir 2 lotur. Nú sótti andstæðingurinn á Jón og náði að minnka muninn í 7-4. Jón fór í 8-4 en þá náði hinn hringsparki í höfuð jóns sem að gaf 4 stig og jafnaði 8-8. Jón byrjaði þá að sækja aftur og komst í 9-8 og að lokum endaði bardaginn 10-9 fyrir Jóni, og hann kominn í næstu umferð.

Næstur á gólfið var Arnar Bragason úr Aftureldingu að keppa í -80 kg senior. Arnar var skráður í 2 flokka, bæði sinn aldursflokk (veteran) og senior. Arnar stjórnaði bardaganum alveg frá byrjun með vel tímasettum árásum og náði að þreyta andstæðinginn. Náði hann meðal annars að sparka andstæðinginn niður ítrekað og góðum höfuðspörkum. Í lokin pakkaði andstæðingurinn algjörlega í vörn en Arnar sótti ekki mikið á hann til þess að spara orku fyrir næstu bardaga. Bardaginn endaði 13-2 Arnari í vil, og sigurinn aldrei í hættu.

Næst steig á gólf Kristmundur úr Keflavík. Kristmundur var eins og Arnar skráður í 2 aldursflokka, sinn flokk sem er junior, og einnig í senior flokk sem hann mun keppa í á næsta ári. Þessi bardagi var í senior flokki. Kristmundur var lengi í gang og fyrst um sinn var bardaginn mjög jafn. Loks í seinni hluta annarar lotu byrjaði kristmundur að hala inn stigum, meðal annars með tveimur góðum höfuðspörkum á stuttum tíma. Bardaginn tók vel á þolinu hjá Kristmundi, en hann sigraði svo örugglega 13-6.

Strax eftir þennan bardaga reyndi verulega á coachana og keppendur því nú voru Íslendingar á öllum gólfum. Ástrós, Sverrir og Jón Steinar.

Sverrir Örvar úr Keflavík. Sverrir átti erfitt með að finna réttu fjarlægðina, en náði þó nokkrum góðum árásum. Hann skoraði vel í brynjuna og náði höfuðsparki. Andstæðingur hans var þó klókur að nýta sér völlinn og staðsetningar og fiskaði mikið af mínusttigum á Sverrir. Sverrir tapaði bardaganum 8-12 og endaði með bronsverðlaun.

Ástrós úr Keflavík keppti á nánast sama tíma og byrjaði hún varlega í fyrstu lotu. Hún prófaði sig áfram og leyfði hinni að sækja á sig en svaraði jafn alltaf og skoraði í brynjuna. Síðan byrjaði hún að sækja á andstæðinginn og skoraði fljótlega með höfuðsparki. Hún leiddi sem sagt frá byrjun og stjórnaði bardaganum þrátt fyrir að andstæðingurinn væri sterkur og gast aldrei upp. Í lotu 2 jók hún forystuna jafnt og þétt þrátt fyrir að andstæðingurinn reyndi allt til þess að jafna stöðuna. Í þriðju lotu innsiglaði Ástrós sigurinn með því að auk forystuna þrátt fyrir að andstæðingurinn reyndi ýmislegt. Sigurinn var aldrei í hættu og Ástrós vann örugglega 13-6.

Sigurður úr Björk var næstur en hann keppir í flokki 15-17 ára. Þetta var fyrsti bardagi Sigurðar erlendis og fór hann varlega af stað með því að verjast andstæðingnum. Síðan náði Sigurður að nýta sér að hann var hærri en andstæðingurinn og náði góðu höfuðsparki og komst þannig yfir í bardaganum. Þetta gaf honum mikið sjálfstraust og hann hélt áfram að sækja á andstæðinginn í þeirri von að breikka bilið en mótherjinn hélt alltaf í við hann með því að svara jafn harðan án þess þó að minnka forskot Sigurðar. Í þriðju lotu sótti Sigurður áfram og gaf andstæðingnum ekkert svigrúm til aðgerða. Að lokum vann hann 12-10 eftir að hafa stjórnað bardaganum allt frá því hann náði fyrsta höfuðsparkinu í fyrstu lotu og fylgdist vel með ráðleggingum Meisam landsliðsþjálfara. Góð byrjun á ferli Sigurðar með landsliðinu.

Nú var komið að öðrum bardaga Jóns Steinars. Aftur fær Jón sterkan mótherja. Var hart barist allar 3 loturnar en andstæðingur Jóns seig fram úr og náði smám saman að auka forskotið eftir því sem að á leið þó að Jón hafi aldrei gefið eftir eða gefist upp. Að lokum hafði andstæðingurinn betur og Jón varð að játa sig sigraðan 13-18, og hann úr leik. Jón stóð sig vel en var í stærsta og sennilega sterkasta flokki mótsins.

Aftur var komið að Kristmundi, en hann átti nú að keppa í sínum aldursflokki, sem er 17 ára og yngri (junior)i. Fyrsta lotan var fremur róleg hjá okkar manni og bardaginn nokkuð jafn. En strax í annari lotu kom sá Kristmundur sem flestir þekka og raðaði inn spörkum hvert á eftir öðrum og vankaði andstæðinginn með góðu höfuðsparki í lok annarar lotu. Kristmundur ætlaði sér að sigra á 12 stiga reglunni í 3. lotu og sótti hart. Andstæðingurinn náði að lifa af stærstu árásirnar í smá tíma en að lokum kláraði Kristmundur bardagann 14-2. Hann var því kominn í úrslit í junior.

Svanur keppti næst í undandúrslitunum. Þjálfari andstæðingins hafði haft gott orð af getu Svans í poomsae daginn áður og virtist fremur áhyggjufullur með að þurfa að mæta Svan í bardaga. Andstæðingur Svans sótti með ákefð en hafði engin svör við góðum höfuðspörkum sem Svanur náði ítrekað. Það opnaðist þó nokkuð fyrir brynjuna í háu spörkunum og andstæðingurinn náði nokkrum ódýrum stigum. Svanur sigraði bardagann örugglega 21-8 eftir 2 lotur.

Næstur á gólfið var Arnar að keppa í undanúrsltum í -80 í senior. Nú var andstæðingur Arnars sterkur og skiptust þeir á nokkrum spörkum í brynjuna í byrjun fyrstu lotu. Um miðja lotuna sækir andstæðingurinn inn en Arnar beið og svaraði með sparki innávið í höfuð andstæðingsins og náði þannig yfirhöndinni, og var staðan 4-3, Arnari í vil eftir 1. lotu. Í annarri lotu skiptust þeir á höggum en Arnar hélt forystunni og var staðan í lok annarrar lotu 7-5 Arnari í vil. Í þriðju lotu dró til tíðinda er Arnar fær tvisvar hálft refsistig fyrir að falla og andstæðingurinn nær síðan baksparki og komst þannig stigi yfir. Þá setti Arnar á fulla keyrslu en fékk heilt refsistig fyrir að sækja eftir að bardagastjóri hafði sagt stopp og staðn nú 8-10 fyrir hinum. Arnar sækir enn grimmt og nær góðu höfuðsparki sem að kemur honum í stöðuna 11-10. Þó sótti hinn grimmt síðustu sekúndurnar og var lokastaðan 12-11 fyrir Arnari og hann sigraði og komst þannig í úrslit í -80 senior flokki.

Þá var komið að undanúrslitunum í senior hjá Kristmundi. Andstæðingurinn var sterkur og náði einföldum gagnárásum í brynjuna strax í byrjun og fylgdi á eftir með höfuðsparki og náði góðri forystu. Kristmundur svaraði þó fyrir sig með snöggu höfuðsparki og sýndi að hann væri til alls líklegur. Andstæðingurinn notaði mikið af höggum í bardaganum og kýldi Kristmund beint í andlitið, þá raunar í annað skiptið en mun fastar en í fyrra skiptið, sem er auðvitað stranglega bannað. Fékk hann heilt refsistig og Kristmundur var ósáttur við andstæðinginn. Eftir viðræður við dómara og Kristmund félst hann á að klára bardagann. Síðar í bardaganum kýldi andstæðingurinn Kristmund aftur of hátt og fékk viðeigandi refsingu. Kristmundur barðist vel en tapaði bardaganum 11-5 og þurfti að láta sér bronsið nægja í þessum flokki.

Næst keppti Ástrós úrslitabardagann í sínum flokki. Ástrós var komin með mikið sjálfstraust eftir gott gengi hingað til og stjórnaði úrslitabardaganum frá upphafi þrátt fyrir ýmsar tilraunir frá andstæðingnum. Ástrós sigraði að lokum 8-3 og fékk gullverðlaun í sínum flokki. Ástrós fékk því þrenn gullverðlaun um þessa helgi.

Næst keppti Arnar í úrlsitabardaganum í veteran aldursflokki. Þarna mættust stálin stinn því andstæðingurinn var Brian Kerr frá Írlandi sem hefur keppt á fjölmörgum mótum í gegnum tíðina og m.a. EM. Einnig hefur hann keppt í „Cagefighting“ og Boxi. Brian var auk þess óþreittur og náði strax góðri forystu í fyrstu lotu, 4-0. Í byrjun annarrar lotu náði Brian króksparki í höfuð Arnars en eftir það var jafnræði með þeim en nú var staðan orðin erfið eða 2-9 Brian í vil. Í síðustu lotunni virtist Arnar loksins finna rétta gírinn en því miður var það of seint og endaði bardaginn 5-12 andstæðingnum í vil og Arnar fékk því silfurverðlaunin í Veteran flokki.

Þá var komið að Svan í sínum úrslitabardaga. Svanur keppti við mjög sterkan andstæðing sem barðist eins og reyndur fullorðinskeppandi. Andstæðingurinn náði góðum gagnárásum í höfuðið á Svan og skoraði þannig flest sín stig. Svanur þurfti að sækja hart til að reyna að minnka muninn en náði sér ekki á strik gegn andstæðingnum og tapaði 2-14 í 3. lotu. Svanur fékk því silfurverðlaun í sínum flokki.

Karel úr Keflavík keppti í úrlslitunum í sínum flokki. Hann keppti við hærri andstæðing sem byrjaði á einföldum árásum í brynjuna og náði nokkrum stigum þannig. Karel náði góðum höggum og sendi andstæðinginn í gólfið með einu þeirra. Karel reyndi að skora úr návígi en náði ekki að finna réttu fjarlægðina. Andstæðingurinn náði stjórn á bardaganum og sigraði á 12 stiga reglunni eftir 2 lotur. Karel fékk silfurverðlaun í sínum flokki.

Sigurður keppti næst í úrslitunum í sínum flokki. Hann keppti við töluvert lægri andstæðing sem var ótrulega lipur og snöggur. Andstæðingurinn náði endurtekið að sparka í höfuðið á Sigurði og lokaði snöggt á allar hans árásir. Sigurður átti erfitt með að halda sinni fjarlægð og át höfuðspörk frá andstæðingnum þar til 2. lota kláraðist og tapaði bardaginn á 12 stiga reglunni eftir 2. lotu. Siguður fékk því silfurverðlaun í sínum flokki, sem er flott byrjun hjá Sigurði.

Kristmundur keppti næst úrslitabardagann í þungavigtinni í junior flokki. Hann var búinn að róa sig niður frá síðasta bardaga og kom mjög einbeittur til leiks. Hann byrjaði á góðum hreyfingum og skrefum strax í byrjun, þeir skiptust á spörkum í einni sókninni og andstæðingurinn náði að skora. Því næst setti Kristmundur upp einfald doljo chagi höfuðspark sem smellhitti og andstæðingurinn svaraði ekki talningu dómara og Kristmundur sigraði því úrslitabardagann á rothöggi eftir rúmar 30 sekúndur og fékk því gullverðlaun í sínum flokk. Hann sýndi á þessu móti að fáir standast honum snúning í hans aldursflokki og framtíðin því björt hjá Kristmundi.

Arnar var síðastur íslensku keppendana. Hann hafði tryggt sér sæti í úrslitum -80 í senior. Allir senior úrslitabardagarnir voru teknir í lok mótsins á ein gólfi. Var nokkurs konar „Arena“ stemning í höllinni þar sem áhorfendur röðuðu sér allt í kringum miðju-bardagagólfið og keppendurnir í komu inn gangveg í gegnum áhorfendahópinn og inn á gólfið í miðri höllinni.

Andstæðingur Arnars var feikisterkur. Hann byrjaði bardagann á höfuðsparki á fyrstu sekúndunum og sýndi mikinn hraða og tækni allan bardagann. Arnar sótti með krafti, blandaði árásum saman, spörkum, höggum og skrefum, en átti erfitt með að komast almennilega að andstæðingnum sem bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í flokknum. Arnar tapaði bardaganum 1-14 og fékk því silfurverðlaun í sínum flokki.

Á meðan sparringhópurinn var að keppa þá var Bjarni hinu megin í húsinu að sigra gullverðlaun í poomsae  í cadet lægri belta flokki. Hann gerði taeguk oh jang og taeguk chil jang.

 

Heildarárangur íslenska liðsins var mjög góður. 13 keppendur tóku þátt og unnu til 19 verðlauna. Framtíðin er klárlega björt fyrir Taekwondo á Íslandi og er sérstaklega tekið eftir því hvað ungu keppendurnir frá Íslandi eru með góða tækni og leiksskilning. Ofan á góða þjálfun í félögunum er Meisam að deila með sér einstöku innsæi sínu í herkænsku í bardaga auk frábærum æfingum í hvernig keppendur stjórna sínum bardögum og hvernig þeir fari að því að ná stjórninni. Þetta er að skila sér inn í bardagaaðferðir allra sem að æfa undir hans handleiðslu.

Íslenska liðið fékk samtals

9x gull
6x silfur
4x brons

Þar af voru í bardaga

4x gull
6x silfur
3x brons

Í Poomsae

5x gull
1x brons

 

Verðlaunahafar:

Arnar 2x silfur í bardaga
Aníta gull í bardaga
Ástrós 3 gull (1x sparring, 1x einstaklingspoomsae, 1x parapoomsae með Svan)
Bjarni 2x gull (1x í bardaga, 1x í einstaklingspoomsae)
Helgi gull í einstaklingspoomsae
Hrafnhildur brons í bardaga
Jón Steinar 5. Sæti í bardaga
Karel silfur í bardaga
Kristmundur gull og brons í bardaga
Sigurður silfur í bardaga
Svanur 2x gull og 1x silfur (gull í einstaklingspoomsae, gull í parapoomsae með Ástrósu og silfur í bardaga)
Sverrir 2x brons (1x brons í bardaga, 1x brons í einstaklingspoomsae)
Vésteinn silfur í bardaga

 

Fyrir hönd keppnishópsins:

Arnar Bragason

Helgi Rafn Guðmundsson